Mótaðu stefnu fyrir Skýið: 7 lykilþættir til að hafa í huga
30. nóvember 2021
Á næsta ári munu 70% fyrirtækja og stofnana hafa mótað sér stefnu í skýjarekstri, samkvæmt Gartner. Þau sem enga stefnu hafa munu eiga í erfiðleikum með að aðlaga sig að nýjum veruleika. Stafræn umbylting gengur nú yfir heiminn og skýjavæðing er óhjákvæmileg afleiðing hennar fyrir flest fyrirtæki og stofnanir.

Helstu punktar til að taka með:
- Stefnumótun er mikilvæg forsenda árangursríkrar skýjavegferðar
- Fyrsta skrefið er svara nokkrum spurningum um grunnforsendur: Hver er ávinningur vs. áhætta? Hvernig metum við árangur?
- Mikilvægt er að skipa teymi sem ber ábyrgð á vegferðinni og tryggja stuðning helstu hagsmunaaðila
- Stefna í skýjavegferð tekur m.a. mið af þekkingu og færni starfsmanna, vali á lausnum, greiningu á vinnslu og gögnum til flutnings og aðgerðaáætlun
Stefnumótun er lykilatriði í skýjavegferðinni
Það er mikilvægt að setja niður stefnu áður en flutt er í Skýið. Stefnan er ekki eins milli skipulagsheilda, en það eru ákveðin skref sem mikilvægt er að fara yfir, hverjar sem aðstæðurnar eru.
Margar ólíkar leiðir hægt að fara en endanleg skýjastefna byggir á heildarstefnu og markmiðum fyrirtækisins.
Flutningur í Skýið er stór ákvörðun og framkvæmd sem hefur áhrif á flesta þætti í starfseminni. Áður en nokkur vinna hefst við stefnumótun í skýjavæðingu er því mikilvægt að tryggja stuðning og aðkomu mikilvægra hagsmunaðila, til dæmis framkvæmda- og fjármálastjóra, en einnig lykilstarfsmanna og yfirmanna á tæknisviði.
Hér eru nokkrar spurningar og vangaveltur sem er mikilvægt að setja fram í stefnumótunarferlinu:
- Af hverju ættum við að flytja í Skýið? Hver er ávinningur vs. áhætta? Og hvaða áhætta fylgir því að gera ekkert?
- Hvernig ætlum við að flytja í Skýið? Með „lift-and-shift“? Að hluta eða alla leið? Á hvaða hraða? Hvaða verkefni og vinnslu (e. workload) á að flytja?
- Hvað þarf að hafa í huga varðandi mannlega þáttinn? Hvaða verkferla og ábyrgðarhlutverk þarf að endurskoða og endurhanna? Hvernig færðu starfsfólkið í lið með þér? Skilningur, stuðningur og markviss starfsþróun er jafn mikilvægt og val á milli sérhæfðra tæknilausna.
- Hvaða tæknilausnir viljum við nýta? Azure eða AWS? Google?
- Hvernig skilgreinum við árangur? Hvernig vitum við að okkur hefur tekist vel til? Það er mikilvægt að skilgreina markmið og árangursmælikvarða til að meta árangur og ávinning.
7 lykilþættir fyrir skýjastefnu
Hér fylgir yfirlit yfir sjö helstu þætti sem þarf að hafa til hliðsjónar þegar stefna er mótuð fyrir skýjavegferðina:
1. Skipaðu ábyrgðaraðila og stýrihóp
Til að tryggja að skýjavegferðin haldi áætlun er mikilvægt að skipa teymi sem fylgir málum eftir. Yfirleitt fer yfirmaður tæknimála fyrir teyminu.
Teymið ber ábyrgð á því að hanna vegvísi (e. roadmap) og verkefnalista, og hafa regluleg samskipti við helstu hagsmunaðila. Einnig gegnir teymið lykilhlutverki við val á skýjalausnum og smíði aðgerðaráætlunar um flutning í Skýið.
Helsta gagnsemi og ábyrgðarhlutverk teymisins má taka saman í þessa punkta:
- Skilgreining og innleiðing stefnu um skýjavæðingu
- Flýtir fyrir upplýstum ákvörðunum um stefnu og aðgerðir hvað varðar skýjavæðingu
- Upplýsingagjöf til hagsmunaaðila um gang mála
- Val á hugbúnaði og gögnum til að flytja í Skýið og hins vegar það sem verður áfram á staðarneti
- Hönnun viðbragðsáætlunar vegna hindrana sem koma upp
- Greining, áætlanir og aðgerðir gagnvart nýjum markaðsforsendum og þróun í skýjatækni

2. Greindu eigin getu og mögulega útvistun
Ekki hafa öll fyrirtæki og stofnanir nægilega þekkingu í eigin röðum til að framkvæma allt ferlið frá upphafi til enda, frá stefnumótun til daglegs reksturs skýjaumhverfis.
Það er því mikilvægt að greina í tíma hvar þarf að bæta í getuna og ýmist ráða utanaðkomandi þjónustuaðila eða styrkja mannauðinn með þjálfun og ráðningum. Yfirleitt þarf að fara báðar leiðir.
3. Sí- og endurmenntun
Þegar stefnan hefur verið tekin á Skýið mun rekstur innviða taka miklum breytingum, sem leiðir til nýrra hlutverka og ábyrgðar í UT deildinni, sem og annars staðar í starfseminni.
Það er nauðsynlegt að gera ráð fyrir því að uppfæra færni og hæfni starfsmanna til að takast á við nýjar skyldur og verkefni.
4. Ítarleg greining á hugbúnaði og innviðum
Ekki á endilega allur hugbúnaður sem er í notkun erindi í Skýið. Áður en hægt er að setja niður skýjastefnu er mikilvægt að greina hvaða hugbúnaður á erindi í Skýið og hver ekki. Fyrir sum fyrirtæki getur verið mikilvægt að halda hugbúnaði sem er lífsnauðsynlegur fyrir stöðugan rekstur á staðarneti.
Hið sama gildir um úrelt forrit sem þarf að leggja af. Ef slík forrit eru flutt í skýið eykur það aðeins kostnað á meðan lítið er um ávinning.
Með Azure Migrate geturðu lagt mat á og haldið utan um flutninginn skref fyrir skref.
5. Kannaðu allar skýjaútfærslur í boði
Það eru margar leiðir færar til að hefja flugið í Skýið. Microsoft Azure pakkar þessum pælingum í R-in 5:
- „Rehost“: Þetta er svokölluð „lift-and-shift“ aðferð þar sem þjónar og kerfi eru flutt nánast óbreytt í skýið. Einu breytingarnar eru gerðar þannig að hægt sé að keyra allt í Skýinu. Ekki eru notaðar þjónustur sem eru sérhæfðar fyrir skýjalausnir.
- „Refactor“: Hluti af kóða kerfanna er endurskrifaður til að sníða betur að eiginleikum Skýsins, án þess að breyta virkni þeirra.
- „Rearchitect“: Stundum er hugbúnaður ekki hæfur til flutnings í Skýið vegna högunar (e. architecture) sem var ákveðin þegar lausnin var smíðuð. Þá þarf að hanna nýja högun.
- „Rebuild“: Hér er lausnin skrifuð frá grunni upp á nýtt til að aðlaga sem best skýjaumhverfi og er róttækasta aðgerðin til flutnings í Skýið.
- „Replace“: Breyttar aðstæður geta kallað á SaaS lausnir í stað forrita sem þarf að passa upp á uppfærslur fyrir eða önnur sem þarf að leggja af. Þetta styttir tímann í skýjaflutningnum og ódýrara en að skrifa og endurhanna forritin upp á nýtt.
Nánari umfjöllun um þessar ólíku nálganir má lesa hér.
6. Eitt ský eða fleiri?
Ákveða þarf hvort nota á eina skýjaþjónustu og hámarka kerfin fyrir þá lausn. Þarf forritið að keyra á fleiri skýjum?
Það er töluvert einfaldara að eiga við eitt skýjaumhverfi: Aðeins þarf að setja upp eina umferð af API tengingum og þá er hægt að nýta allt sem skýjaþjónustan hefur upp á að bjóða.
En möguleikarnir eru fleiri. Hægt er að hugsa sér nokkrar samsetningar að auki:
- Keyra eitt forrit eða vinnslu (e. workload) í einu skýi, aðra í öðru skýi: Þetta er einfaldasta fjölskýjaleiðin og getur verið hentugt þegar kemur að því að færa fleiri lausnir í skýið. Þannig er líka hægt að hámarka hverja vinnslu fyrir þá þjónustu sem það keyrir á.
- Dreifa sérhverri lausn yfir fleiri en eitt ský: Sum fyrirtæki kjósa að nota afmarkaða virkni lausna sinna í mismunandi skýjaþjónustum. Þannig væri hægt að nota yfirburði einnar skýjaþjónustu á sviði gervigreindar en styrkleika annarar hvað varðar til dæmis hraða.
7. Aðgerðaáætlun
Vönduð aðgerðaáætlun með tímalínu er nauðsynleg til að stefnan gangi eftir. Aðgerðaáætlunin byggir á vegvísinum og þeirri forgangsröðun sem þar birtist.
Helstu þættir í slíkri aðgerðaáætlun gætu verið:
- Stjórnun og skipulag fyrir skýjavæðinguna sem byggir á heildarstefnu fyrirtækisins, verkefnaskipulagi og regluverki um meðferð gagna.
- Stjórnun og skipulagning auðlinda og aðfanga sem nauðsynleg eru fyrir skýjaflutninginn
- Flokkun og forgangsröðun skýjaverkefna, tímalína og helstu vörður
- Skjalfesting stefnu og samþætting við heildarstefnumótun og markmiðasetningu

Samantekt
Stefnumótun er mjög mikilvæg þegar ráðist er í miklar breytingar í rekstri sem hafa víðtæk áhrif, ekki síst þar sem óvissa og flækjustig er töluvert. Skýjavegferð er tvímælalaust slíkt verkefni. Hér hafa verið tekin saman átta atriði sem er gott að hafa í huga þegar stefna um flutning í Skýið er mótuð.
Meðal annars er mikilvægt að skipa ábyrgðaraðila og sérstakt skýjateymi, leggja mat á eigin getu og þörf fyrir þjálfun starfsmanna, greina ýtarlega hugbúnað, vinnslu og gögn, kanna mismunandi útfærslur flutnings og smíði aðgerðaráætlunar.
Nokkur úrræði frá Azure til aðstoðar við flutninginn:
Hversu reiðubúinn ertu fyrir Skýið? Hakaðu út ýtarlegan tékklista:
Strategic Migration Assessment and Readiness Tool
Reiknaðu ávinning þinn af flutningi í Skýið:
Total Cost of Ownership (TCO) calculator
Smíðaðu aðferðaráætlun, skref fyrir skref:
Lestu meira um stefnumótun fyrir skýjavegferð:
Cloud Strategy Leadership by Gartner
Preparing to Adopt the Cloud: A 10-Step Cloud Migration Checklist
6 Steps for Planning a Cloud Strategy - Smarter With Gartner
Cloud Implementation Journey: 3 Adoption Tips
The cloud transformation engine
A 7-Step Guide to Creating Your Cloud Strategy
þér gæti einnig líkað
Nokkur ráð til að auka öryggið á hagkvæman hátt í Azure
Microsoft Azure býður notendum fjölmargar lausnir til að auka öryggi í skýjaumhverfi sínu. Tvær kjarnaþjónusturnar, „Microsoft Sentinel“ og „Defender for Cloud“ mynda sterkan grunn til að byggja á og fyrir félög sem vilja halda öryggiskostnaði í lágmarki er hægt að byrja ódýrt og byggja síðar ofan á.
Eru gögnin örugglega örugg í Skýinu?
Skipuheildir sem eru að hugsa um að færa stafrænan rekstur sinn í Skýið velta óhjákvæmilega fyrir sér öryggismálum. Öryggi er gríðarlega mikilvægt fyrir flest fyrirtæki og stofnanir. Við heyrum stöðugt fréttir af netárásum og sífellt þróaðri aðferðum glæpamanna til að stela gögnum og halda í gíslingu. Sú spurning vaknar því óhjákvæmilega: Hvað með Skýið? Er það öruggt - eða er betra að taka ekki óþarfa áhættu og reka kerfin bara áfram eins og áður?