Fara á efnissvæði

domino’s uppfærir þjónustur og hagræðir í azure

_ Í fljótu bragði

vefur

#starfsmanna

> 600

staður

ísland

geiri

skyndibitamarkaður

þjónusta

pizzur

bakgrunnur

Domino’s á Íslandi hefur verið í samstarfi við Vettvang og Well Advised um þróun stafrænna miðla og kerfisrekstur undanfarin ár og saman hafa fyrirtækin náð miklum árangri. Domino’s er sannarlega tæknileiðtogi á sínum markaði og þótt víðar væri leitað í íslensku atvinnulífi.

Fyrirtækið hefur nýtt tæknina til hins ýtrasta til að bjóða framúrskarandi þjónustu á stafrænum miðlum, eins og 14 tilnefningar til Íslensku vefverðlaunanna - og 5 verðlaunalausnir - eru gott vitni um.

Þá er fyrirtækið í fararbroddi í notkun gervigreindarlausna til greiningar og vinnslu gagna í samstarfi við Datalab.

áskorunin

Domino’s hóf skýjavegferð sína í Microsoft Azure fyrir fimm árum. Á þeim tíma hafa lausnir Azure þróast mikið og margar nýjungar komið fram sem gera mögulegt að skera kostnað enn frekar niður og ná betri árangri í kerfisrekstri.

Það var því orðið tímabært að yfirfara hýsinguna fyrir Domino’s í heild og kanna hvaða möguleikar voru í boði til að ná enn betri árangri með Azure.

Rokkandi þörf fyrir vélarafl kallar á breytingu
Stærsti einstaki þjónustuliðurinn sem Domino’s nýtir hjá Azure er gagnagrunnsþjónusta sem var uppsett með fyrirfram ákveðnu vélarafli (e. provisioned Database Transaction Unit, DTUs), en þjónustan er hönnuð til að þola vel álag á mestu álagstímum í sölunni.

Kröfur Domino’s eru hins vegar mjög álagsbundnar; gríðarlegur gagnaflutningur á sér stað í kringum Megaviku, Netdaga og Þriðjudagstilboðin en einnig um helgar.  

Þess á milli er hins vegar gagnastreymi töluvert hóflegra og svo eru allir afgreiðslustaðir lokaðir frá kl. 01:00 til 11:00 á morgnana.

nálgun

Eftir nokkra rannsókn og samanburð á kostum var niðurstaðan að þarna væri kjörið tækifæri til að innleiða nýja netþjónalausa gagnagrunnsþjónustu frá Azure (e. Azure SQL Database serverless), þar sem afl og afköst eru skrúfuð upp og niður eftir aðstæðum.

Azure SQL Database serverless er þjónustuleið sem Azure bauð fyrst haustið 2019. Þessi leið hámarkar afköst og lágmarkar kostnað fyrir gagnasöfn þar sem álag er mjög sveiflukennt og ófyrirsjáanlegt. Með þessu móti er hægt að skala vinnslugetu mjög hratt þegar álag er mikið og aftur til baka þegar hægist á. Aðeins er greitt fyrir notað afl, sekúndu fyrir sekúndu. Netþjónalaus gagnaþjónusta býr alltaf að nýjustu uppfærslum og er samstundis til reiðu þegar þörf skapast.

Gunnar Óttarson

Sérfræðingur hjá Well Advised

Þróunargrunnar stilltir af
Einnig voru í rekstri nokkur fjöldi af þróunargrunnum (e. development databases) í mismikilli notkun.

Kröfurnar þar voru með lægra móti og því var tilvalið að sameina aflið sem var frátekið fyrir þá grunna í einni stæðu með svokölluðu „SQL Database Elastic Pool“.

Uppfært í nýja útgáfu af Azure App Service
Vefsvæðin dominos.is og api.dominos.is keyrðu svo á eldri útgáfu af appþjónustu Azure (e. Azure App Service).

Með því að uppfæra í nýrri gerð var bæði hægt að auka aflið sem stóð veflausnunum til boða en einnig draga verulega úr kostnaði með því að skuldbinda sig til Microsoft til nokkurra ára og fá að launum ~40% afslátt.

Samskonar skuldbinding var gerð fyrir „SQL Database Elastic Pool“ og fékkst þá aftur ~40% afsláttur ofan á hagræðinguna sem fékkst með því að samnýta vélaraflið fyrir þróunargrunnana.

Þegar þessar aðgerðir höfðu verið reiknaðar saman kom í ljós að hagræðingin mældist í milljónum króna á ársvísu - tilteknir þjónustuliðir hýsingarinnar lækkuðu um heil 40%.

staðan í dag

  • Netþjónalaus gagnagrunnsþjónusta - gerir kleift að skala hratt afköst eftir álagi
  • Azure App Service uppfært og þjónustuleið hámörkuð - aukið afl til lausna Domino’s og árlegur sparnaður um 40%
  • Þróunargrunnar stilltir af - vinnslugeta sameinuð og hagrætt sem nemur 40% sparnaði á ári.
kynntu þér pakkana okkar